Knattspyrnuhús á Torfnesi

-

Knattspyrnuhús á Torfnesi

Nokkur orð um Knattspyrnuhús á Torfnesi.

Í Ísafjarðarbæ er fjölbreytt og öflugt íþróttastarf fyrir alla aldursshópa. Mörg íþróttafélög eru starfandi á svæðinu, sum lítil með takmarkaða starfsemi en önnur stærri með skipulagða umgjörð og faglegt starf árið um kring. Íþróttafélagið Vestri er stærsta íþróttafélagið á Vestfjörðum með mörg hundruð yngri iðkendur og fjölda sjálfboðaliða sem leggja á sig mikla vinnu til að halda félaginu í fremstu röð á landsvísu. Aðstæður til íþróttaiðkunar á svæðinu eru hins vegar misgóðar og uppbygging íþróttamannvirkja hefur lítil sem engin verið undanfarin ár.

Einna verst er staðan þegar kemur að knattspyrnuiðkun á svæðinu. Ástand beggja knattspyrnuvallanna á Torfnesi er bágborið og standast þeir engan veginn þá kröfur sem gerðar eru slíkra mannvirkja í dag. Ekki hefur verð skipt um gervigras á minni vellinum frá því að hann var tekinn í notkun árið 2003 en endingartími gervigrass er almennt 5-8 ár. Grasvöllurinn er nánast ónothæfur þar sem undirlagið er ónýtt og dren lélegt. Er hann eingöngu notaður sem keppnisvöllur meistaraflokka yfir hásumarið og varla það því heimalið hafa þurft að spila heimaleiki á útivelli þegar veðuraðstæður eru óhagstæðar. Sömuleiðis þarf yfirleitt að spila fyrstu og síðustu leiki tímabilsins annars staðar. Meistarflokkur karla hefur síðustu ár æft á knattspyrnuvellinum í Bolungarvík en börn og ungmenni æfa á gervigrasvellinum. Þegar líður á vetur færast æfingar inn í íþróttahúsin á Torfnesi og í Bolungarvík sem eru fullnýtt fyrir og anna varla eftirspurn íþróttafélaga um tíma fyrir æfingar, kappleiki og íþróttamót.

Til að bæta það aðstöðuleysi sem knattspyrnan býr við hér fyrir vestan er nauðsynlegt að byggja knattspyrnuhús þar sem hægt er að æfa innandyra árið um kring við góðar aðstæður. Margir hafa skoðun á því hvernig hús á að byggja og hvar það á að vera staðsett. Forráðamenn knattspyrnudeildarinnar hafa nú í mörg ár skoðað allar hliðar þessa máls og haft sér til aðstoðar sérfræðinga með mikla þekkingu og reynslu þegar kemur að framkvæmd sem þessari. Niðurstaðan er hús sem er 70x50 metrar, staðsett hjá vallarhúsinu á Torfnesi. Að auki þarf að setja gervigras á aðalvöllinn og endurnýja gervigrasið á minni vellinum. Að mati þeirra sem til þekkja yrði þar með komin aðstaða hér fyrir vestan eins og þær gerast bestar á landinu.

Nýtt hús með aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun mun minnka álagið á íþróttahúsinu á Torfnesi og skapa meira svigrúm fyrir aðrar íþróttagreinar. Fyrst og síðast er þó verið að bæta aðstöðu hundruða barna og ungmenna sem stunda íþróttir í sveitarfélaginu. Er mikilvægt að þau hafi sömu tækifæri og standi jafnfætis jafnöldrum sínum í öðrum sveitarfélögum þegar kemur að framboði á öflugu íþróttastarfi og aðstöðu til íþróttaiðkana barna og ungmenna. Því miður eru nokkur tilfelli þar sem fjölskyldur hafa flutt í burtu eða valið búsetu annars staðar vegna aðstöðuleysis.

Lengi hefur verið rætt um byggingu knattspyrnuhúss á Torfnesi og hin seinni ár gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins en því miður hefur ekkert orðið úr framkvæmdum af ýmsum ástæðum. Oft var þörf en nú er nauðsyn og þetta verkefni má ekki bíða lengur. Við ætlum að leita allra leiða til að byggja upp aðstöðu eins og þær gerast bestar á landinu og við getum verið stolt af. Til þess þurfum við fleiri í lið með okkur og óskum því eftir aðstoð frá einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum, sveitarfélögum og öllum þeim sem vilja taka þátt í þessu stóra verkefni með okkur, ekki bara til hagsbóta fyrir íþróttafólkið okkar heldur samfélagið allt.

Styrkja

Hægt er að styrkja verkefnið með millifærslum á:
Rkn: 0556-14-400000
Kt: 520416-0720.
IBAN nr. IS870556144000005204160720
SWIFT: GLITISRE